Nemendur og starfsfólk skólans komu saman í sal skólans föstudaginn 24. janúar til að fagna Bóndadeginum og byrjun Þorra. Blótið var sannkölluð hátíð þar sem flestallir tóku vel til matarins. En í boði var hangikjöt, kartöflustappa og rófur, ásamt sviða- og grísasultu, súrum hrútspungum, harðfiski og hákarli.
Annálar stiga voru lesnir, þar sem farið var yfir helstu viðburði og skemmtilegheit ársins. Þorraþrællinn var sunginn ásamt nokkrum öðrum lögum undir stjórn Drífu Sig. og tóku nemendur vel undir. 10. bekkingar voru með skemmtiatriði sem heppnuðust mjög vel og var mikið hlegið. Að borðhaldi loknu dönsuðu nemendur af lífi og sál undir stjórn Michelle. Samverustundin var hin ánægjulegasta og mikil gleði ríkti meðal nemenda og starfsfólks.
Sjá myndir: Þorrablót 2025