Ágætis mæting var á morgunverðarfundi skólaráðs í morgun

Kærar þakkir fyrir komuna á grautarfundinn í morgun. Það var reglulega ánægjulegt að eiga saman þessa dýrmætu stund þar sem foreldrar, starfsfólk og nemendur ræddu málefni sem skipta okkur öll máli.

Vangavelturnar voru – Hvað getum við gert til að bæta andlega – og líkamlega líðan, okkar og annarra í kring um okkur? - Hvernig getum við bætt samskipti okkar við aðra? – Hvaða skoðun hefur þú á símafríi á skólatíma?

Það komu fjölbreytt og skemmtileg svör við þessum spurningum sem við munum taka saman og nýta í mati okkar á skólastarfinu og til að sjá hvað við getum gert betur.

Það hefði vissulega verið skemmtilegt að sjá fleiri foreldra taka þátt í morgunverðarfundinum. Á síðustu misserum hefur umræða átt sér stað í samfélaginu um skólamál. Í háværri umræðu er mikil krafa á að skólar taki af festu á agamálum og námi nemenda. Fundir og samkomur eins og morgunverðarfundurinn eru mikilvægur vettvangur fyrir skóla og foreldra til að eiga samtal um öll þau mál sem varða skóla og nemendur. Þegar upp er staðið eru heimili og foreldrar áhrifamestu öflin í persónusköpun, viðhorfum og framkomu nemenda. 

Samkvæmt aðalnámskrá byggist velferð barna og farsæl námsframvinda á því að foreldrar styðji við skólagöngu barna sinna, taki þátt í námi þeirra og foreldrasamstarfi frá upphafi til loka grunnskóla.

Tökum höndum saman og byggjum upp öflugt samstarf foreldra og skóla í okkar litla og heimilislega skóla.