Hönd í hönd

Föstudaginn 21.mars sl. tók skólinn þátt í átaki Mannréttindastofu Íslands undir stjórn Michelle Mielnik.

Börn, ungmenni og fullorðnir taka höndum saman í kringum skólann sinn (eða leiksvæði skólans) til að sýna samstöðu með margbreytileika fólks og gegn alls kyns fordómum. Hvers vegna í dag? Þann 21.mars árið 1960 var hópur mótmælenda myrtur fyrir að hafa mótmælt fordómafullum aðgerðum stjórnvalda í Suður-Afríku á þeim tíma. Því var þessi dagur útnefndur af Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sem alþjóðadagur gegn kynþáttamisrétti.

En fordómar eru því miður margs konar. Sem betur hafa margir á síðustu áratugum unnið í því að bæta mannréttindi í mörgum löndum með því að fræða fólk betur, hjálpa fólki að setja sig í spor annarra og skilja betur að fólk í heiminum er alls konar og enginn einn hópur fólks er æðri öðrum. Fólk hefur mismunandi styrkleika og áhugamál, talar mismunandi tungumál, lítur mismunandi út og þroskast á mismunandi hátt og mismunandi tíma. Það hefur mismunandi trú, elskar aðra hvert á sinn hátt og sýnir öðrum virðingu og velvild með ýmsum leiðum.

Margt frægt fólk, þekktir leikarar og söngfólk frá ýmsum löndum, hefur stutt við bætt mannréttindi í heiminum, en ekki síður aðrir minna þekktir einstaklingar: sumir sem hafa alist upp með virðingu í þægilegum, umhyggjusömum aðstæðum og sumir sem hafa sjálfir lent í ofbeldisfullum aðstæðum vegna fordóma. Bæði börn OG fullorðnir hafa unnið að bættum mannréttindum.

Og það getum við líka hér í Fellaskóla – þar sem við erum líka alls konar, þótt inn við beinið séum við eins – við erum öll manneskjur. Í stað þess að eyða dýrmætum tíma og orku okkar í að lítillækka aðra, níðast á öðrum með ljótum orðum, poti, stríðni, líkamlegu ofbeldi eða virðingarleysi gagnvart hlutum í kringum okkar er mun mikilvægara að við reynum að þroskast og vera heiðarlegar, styðjandi og skilningsríkar manneskjur. Við viljum vera á stað þar sem við fáum að vera við sjálf, efla það jákvæða í okkur og hvetja aðra til að gera það sama.

Lífið er skemmtilegra og litríkara þar sem ekki eru allir nákvæmlega eins OG kunna að meta það mikils virði með því að bera virðingu hvert fyrir öðru.    Lyftum nú höndum saman: „Burtu með fordóma!“   

Í lokin var lagið "Enga fordóma" með Pollapönk spilað, nemendur sungu og dönsuðu með.

Sjá myndir: Hönd í hönd