Glæsileg árshátíð Fellaskóla

Árshátíð skólans fór fram með glæsibrag í gærdag.

Nemendur á yngsta stigi sungu lagið „Traustur vinur“ og nemendur á miðstigi sýndu stutt leikrit og sungu svo lagið „Olsen Olsen“. Unglingastig tók fyrir söngleikinn „Grease“.

Undirbúningurinn fyrir viðburðinn hófst fyrir nokkrum vikum og hafa nemendur lagt mikið á sig svo vel tækist til með aðstoð kennara. Sviðið var vandlega sett upp í sal skólans af nemendum á unglingastigi og sáu þeir einnig um að stilla upp sviðslýsingu. Tónlistarskólinn sá um söng- og tónlistaræfingar.

Allir nemendur skólans tóku þátt í öllum þáttum sýningarinnar, hvort sem var að stíga á svið til að leika eða koma leikmunum fyrir. Búningar leikaranna voru mikið til úr búningageymslu skólans, þó föndruðu nemendur á yngsta stigi sniðugar og litríkar grímur fyrir sitt atriði.

Árshátíðin er árlegur hápunktur í skólastarfinu, þar sem nemendur fá tækifæri til að blómstra utan hefðbundins náms og sýna hæfileika sína á fjölbreyttan hátt. Í ár tókst það einstaklega vel og geta nemendur verið stoltir af sjálfum sér.

Sjá myndir hér: Árshátíð 2025