Nemendur og kennarar á yngsta stigi nutu frábærra samverustunda í Eyjólfsstaðaskógi mánudaginn 27.febrúar ásamt leiðbeinendum úr Náttúruskólanum. Í stórri hringekju við Blöndalsbúð var tekist á við 4 mismunandi viðfangsefni: útieldun, ratleik, náttúrulistaverk og skógarfræðslu. Við fengum frábært veður, borðuðum á okkur gat og fengum frískt loft og næga hreyfingu í glampandi sólinni.
Reynt var að nota eldfæri til að kveikja eld og sýndu margir ótrúlega þrautseigju við þá raun. Við elduðum tortillur, ostasósu, lummur, kjötsúpu, skinkusamlokur og banana með súkkulaði. Við bjuggum til alls kyns verur, dýr og stíflur úr snjó og klaka og prófuðum margar þrautir í ratleik, s.s. að teikna, gretta okkur, syngja lag, troða kókósbollu upp í annan (með bundið fyrir augun), þrífótahlaup og margt fleira. Einnig fannst okkur fróðlegt að læra um tré og skóginn, m.a. hvernig trén ná í næringu og búa til sykur, samvinnu okkar og trjáa með súrefni og koltvísýring, hvernig karlkönglar og kvenkönglar líta mismunandi út, hve há tré geta vaxið, hve gömul þau geta orðið, hvernig hægt er að sjá á greinum trjáa hve langt það hefur vaxið á hverju ári (líka til að finna aldur trésins án þess að höggva það niður og telja árshringina innan á) og hvernig tré mynda sár yfir gatið ef grein brotnar af.
Við byrjuðum og enduðum á því að tengja okkur við jörðina og þakka náttúrunni fyrir.
Hér getið þið séð fleiri myndir úr ferðinni: Blöndalsbúð